Á miðvikudag í síðustu viku stöðvuðu yfirvöld 15 báta með 100 manns um borð. Þá komst fjöldi þeirra, sem reyna að komast sjóleiðina til Bretlands og eru gripnir, upp í 2.887 en það er tæplega 1.000 fleiri en allt síðasta ár og tíu sinnum fleiri en allt árið 2018.
Ýmislegt veldur þessari auknu sókn yfir Ermarsund til Bretlands þessar vikurnar. Gott veður á þar hlut að máli enda mun auðveldara að sigla litlum bátum yfir sundið þegar veður er gott. Þá hefur franska lögreglan að undanförnu gert rassíur í flóttamannabúðum við Calais. Mörg hundruð manns hafa verið fjarlægðir úr búðunum og fluttir í móttökumiðstöðvar í norðurhluta Frakklands en ekki eru allir sáttir við það og vilja frekar komast til Bretlands. Einnig hefur dregið úr framboði siglinga yfir sundið vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og því senda smyglarar fólk af stað í litlum bátum.