Vinirnir Tom Cook og Joseph Feeney hétu hvor öðrum því að ef annar þeirra myndi fá stóra vinninginn í Powerball Jackpot, sem er bandaríska útgáfan af Lottó, þá myndu þeir skipta vinningnum á milli sín.
Á föstudaginn gerðist það svo að Cook fékk fyrsta vinning í lottóinu, heilar 22 milljónir dollara en það svarar til um þriggja milljarða íslenskra króna.
Um leið og Cook áttaði sig á þessu hringdi hann í Feeney.
„Hann hringdi í mig og ég sagði: „Ertu að grínast í mér?““
Sagði Feeney og bætti við:
„Núna getum við keypt það sem okkur langar í. Ég get ekki ímyndað mér betri leið til að fara á eftirlaun.“
Þrátt fyrir að vinirnir geti nú keypt nánast allt sem þá dreymir um þá hafa þeir engar stórar áætlanir um að gera það. Það eina sem þeir hafa í hyggju er að eyða meiri tíma með fjölskyldum sínum.