Fyrirtækið framleiðir aðallega táragas og táragasbyssur fyrir herinn og lögregluna en „heimilisbyssan“ hefur rokselst að undanförnu eins og áður sagði.
Byssan líkist venjulegum skammbyssum og er seld á 325 dollara. Skotfæri kosta 300 dollara, það er kassi með 95 skotum. Einnig er hægt að kaupa lasermið, skotskífur og hulstur ef fólk er reiðubúið til að greiða enn meira.
Á síðustu þremur mánuðum seldist 36 sinnum meira af Byran HD táragasbyssunni en á sama tíma á síðasta ári. Fyrirtækið markaðssetur byssuna sem „áhrifaríkan valkost, sem ekki drepur fólk, til að vernda fólk og eignir“.
Verð hlutabréfa fyrirtækisins hefur hækkað um 500% á árinu, þar af um 300% síðan George Floyd var drepinn.
Þrátt fyrir að vopnið drepi ekki fólk segja sérfræðingar að það sé hættulegt og geti valdið alvarlegu líkamstjóni.
Byssan virkar þannig að skotum er hleypt af með samanþjöppuðu lofti. Þetta gerir að verkum að ekki þarf skotvopnaleyfi því byssan fellur ekki undir bandaríska vopnalöggjöf. Skotin, sem eru eins og boltar í laginu, springa þegar þau lenda á einhverju eða einhverjum og geta gert fólk „óskaðlegt“ í allt að 30 mínútur því viðkomandi missir sjónina tímabundið og á erfitt með andardrátt.