BBC skýrir frá þessu og hefur eftir embættismanni í Ghor héraði. Fram kemur að þetta hafi gerst í síðustu viku þegar liðsmenn Talibana réðust inn á heimili fjölskyldu Gul í bænum Griwa í Ghor-héraðinu í miðhluta Afganistan.
Þeir voru að leita að föður hennar til að hafa hann á brott með sér þar sem hann studdi ríkisstjórn landsins en ekki Talibana. Þegar eiginkona hans reyndi að koma í veg fyrir að eiginmaður hennar væri færður á brott drápu Talibanar hjónin fyrir utan húsið.
Qamar Gul, sem var inni, tók þá AK-47 sem fjölskyldan átti og skaut tvo Talibana til bana og særði nokkra til viðbótar að sögn Habiburahman Malekzada lögreglumanns í bænum.
Qamar Gul er sögð vera 14 til 16 ára en embættismenn eru ekki sammála um aldur hennar en í landinu er algengt að fólk viti ekki nákvæmlega hvað það er gamalt.
Í kjölfar þess að Qamar drap Talibanana gerðu aðrir liðsmenn samtakanna árás á hús fjölskyldunnar en voru hraktir á brott af nokkrum bæjarbúum og stjórnarhermönnum.
Qamar Gul og yngri bróðir hennar hafa nú verið flutt á öruggari stað af stjórnarhernum að sögn Mohamed Ared Aber héraðsstjóra.
Margir hafa hrósað Qamar Gul fyrir hetjuskap og ljósmynd af henni hefur farið víða á netinu.