Gulf News skýrir frá þessu. Haft er eftir Abdul Rahman Al Lahim, mannréttindalögfræðingi frá Sádí-Arabíu, að dómurinn sé sögulegur og telur hann opna fyrir tækifæri til að auka jafnrétti í landinu.
„Þessi dómur getur orðið til þess að endi verði bundinn á hörmulegar upplifanir margra kvenna.“
Samkvæmt eldri lögum gátu foreldrar lagt fram kæru hjá lögreglunni ef kona hvarf eða bjó ein án þess að hafa fengið til þess heimild hjá forráðamanni sínum sem var alltaf karlmaður.
Muflih Al Qahtani, stjórnarmaður í National Society for Human Rights, sagði í samtali við Gulf News að það væru grundvallarmannréttindi að hafa aðgang að íbúðarhúsnæði og að konur hafi rétt til að verða sér úti um húsnæði til að búa í.
Dómstólar landsins eru undir stjórn konungsfjölskyldunnar og þá aðallega Mohammed bin Salman, krónprins, sem mun væntanlega taka við konungstign í þessu gríðarlega íhaldssama landi. Hann hefur lagt mikla áherslu á að bæta ímynd landsins á erlendum vettvangi og hefur meðal annars afnumið bann við því að konur megi stýra ökutækjum. Hann hefur einnig afnumið hýðingar sem refsingu.
En mörg mannréttindasamtök segja aðgerðir Salman ekki hafa skilað konum neinum raunverulegum ávinningi og séu í raun hlægilegar og hafi að vissu leyti gert aðstæður kvenna verri en áður.