Markus Braun, forstjóri fyrirtækisins, hætti störfum um leið og þetta spurðist út. Hann var síðan handtekinn. Marsalek, sem var nánasti samstarfsmaður Braun, neyddist einnig til að láta af störfum og nú er hann horfinn.
Þýsk yfirvöld telja hann einn af höfuðpaurum málsins. Hann er grunaður um að hafa falsað rekstrartölur fyrirtækisins árum saman og hafi þannig tekist að koma því inn á hinn virðulega Dax-30 hlutabréfalista. Financial Times skýrir frá þessu.
Alþjóðleg handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur Marsalek en vangaveltur hafa verið um hvort hann hafi flúið til Filippseyja en þarlend yfirvöld segja að það sé ekki rétt.
Braun hefur verið látinn laus gegn tryggingu. Hann er grunaður um að hafa falsað sölutölur Wirecard til að gera fyrirtækið meira aðlaðandi í augum fjárfesta og viðskiptavina.