Berlingske skýrði frá þessu um helgina en blaðið fékk aðgang að dómsskjölum á grundvelli upplýsingalaga. Þetta er í fyrsta sinn í rúmlega 70 ár sem ákæra er gefin út í Danmörku fyrir landráð.
El-Haj, sem er af palestínskum ættum, var handtekinn 11. nóvember á síðasta ári á Kastrupflugvelli þegar hann kom þangað frá Tyrklandi. Hann hafði setið í fangelsi þar síðan 2017 en þangað kom hann frá Sýrlandi þar sem hann barðist með hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Íslamska ríkið.
Í upphafi var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli hryðjuverkalaga en hann hafði hótað að drepa þrjá danska stjórnmálamenn.
El-Haj hélt til Sýrlands 2013. Hann særðist í sprengjuárás í byrjun árs 2017. Síðan var honum smyglað yfir til Tyrklands ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum. Þar var hann handtekinn í desember sama ár.
Hann var framseldur til Danmerkur á síðasta ári að eigin ósk. Hann hafði áður verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Tyrklandi fyrir að hafa gengið til liðs við Íslamska ríkið.