Á föstudaginn sögðu hollensk yfirvöld að útreikningar sýni að geislavirkar samsætur (ísótópar) berist frá vesturhluta Rússlands. Norska ríkisútvarpið skýrir frá þessu. Að mati hollenskra yfirvalda getur þetta bent til að tjón hafi orðið á brennsluhlutum í kjarnorkuveri.
Rússneska Tass fréttastofan segir að hvorugt kjarnorkuverið í norðvesturhluta Rússlands hafi tilkynnt um vandamál.
Um lítið magn samsæta er að ræða og er það hættulaust í því magni sem það er nú í Skandinavíu. Astrid Liland, hjá norsku almannavörnunum, sagði í samtali við Norska ríkisútvarpið að ef kjarnorkuslys hefði orðið myndu mælast miklu hærri gildi geislavirkni en nú.