Miðað við niðurstöður rannsóknarinnar verða jarðarbúar um 8,8 milljarðar árið 2100 en það er tveimur milljörðum minna en fyrri spár SÞ gerðu ráð fyrir.
Í rannsókninni er því spáð að miklar breytingar verði á valdajafnvægi í heiminum vegna lægri fæðingartíðni (það er fjölda barna sem hver kona eignast að meðaltali) og þess að meðalaldur fer hækkandi.
Í lok aldarinnar verður staðan orðin sú í 183 af þeim 195 löndum, sem rannsóknin náði til, að þar fækkar fólki nema innflytjendum fjölgi. Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu The Lancet.
Í tuttugu löndum, þar á meðal Japan, Spáni, Taílandi, Portúgal, Póllandi og Ítalíu, mun íbúum fækka um allt að helming. Þá gæti Kínverjum fækkað úr um 1,4 milljörðum í dag í 730 milljónir um næstu aldamót. Á sama tíma mun íbúum í löndunum sunnan Sahara fjölga mikið eða allt að því þrefaldast og verða um þrír milljarðar. Þar af mun Nígeríumönnum fjölga úr 200 milljónum í 800 milljónir. Ef það gengur eftir verður landið það næstfjölmennasta í heimi. Aðeins Indverjar verða fleiri, 1,1 milljarður.