Gagnrýnendur segja að hér sé ekki um neitt annað að ræða en beinar auglýsingar fyrir Goya Foods. Auðvelt er að draga þá ályktun þegar textinn undir mynd Ivönku er lesin:
„Ef það er Goya, þá hlýtur það að vera gott.“
Pólitískir andstæðingar Trump, stjórnmálaskýrendur og sérfræðingar í lögum segja margir hverjir að mynd Ivönku brjóti gegn reglum um að embættismenn í Hvíta húsinu megi „ekki opinberlega lýsa yfir stuðningi við vörur eða fyrirtæki“.
„Þetta dregur upp þá mynd að stuðningur ríkisstjórnarinnar sé til sölu: Styðjið forsetann og ríkisstjórnin styður við vörur þínar.“
Hefur BBC eftir Walter Shaub, fyrrum yfirmanni siðfræðistofnunar alríkisins (OGE) sem bætti við að mynd Ivönku væri klárt brot á reglunum.
Noah Bookbinder, fyrrum saksóknari í spillingarmálum og nú starfsmaður samtaka sem fylgjast með brotum á siðferðisreglum í stjórnmálum, var einnig skýrmæltur á Twitter:
„Þetta er bara allur pakkinn: Trump-fjölskyldan sem notar opinberar stöður til að auglýsa einkafyrirtæki og launar pólitískum stuðningsmönnum með aðstoð úr Hvíta húsinu. Svo mikil spilling í einni færslu.“
Í yfirlýsingu sem Hvíta húsið sendi Washington Post vegna málsins segir að Ivanka hafi fullan rétt til að „láta persónulegan stuðning sinn við fyrirtæki í ljós, fyrirtæki sem hefur verið sniðgengið og haft að háði fyrir að styðja ríkisstjórn Trump“.
Málið vatt síðan enn frekar upp á sig á miðvikudaginn þegar forsetinn birti meðfylgjandi mynd af sér með vörur frá Goya. Hann hefur einnig skrifað á Twitter að Goya Foods „standi sig framúrskarandi vel“ og að fólk kaup vörur fyrirtækisins í miklu magni.
Ástæðan fyrir ánægju Trump-fjölskyldunnar með Goya Foods er að forstjóri fyrirtækisins sagði á sameiginlegum fréttamannafundi fyrr í mánuðinum að Bandaríkin væru „lánsöm“ að vera með leiðtoga eins og Donald Trump.