Í samtali við BBC sagði Sir Tim Clark, forstjóri félagsins, að nauðsynlegt sé að segja fjölda starfmanna upp eða um 15% af heildarfjöldanum. Hann sagði jafnframt að Emirates hafi ekki farið jafn illa út úr heimsfaraldrinum og mörg önnur flugfélög.
Áður en heimsfaraldurinn skall á stóð Emirates frammi fyrir „nokkrum bestu árum sögunnar“. Þá voru starfsmenn félagsins um 60.000.
BBC hefur heimildir fyrir að vaxandi óánægja sé hjá félaginu, margir starfsmenn eru sagðir ósáttir við skort á upplýsingaflæði og gegnsæi. Að minnsta kosti 700 af 4.500 flugmönnum félagsins fengu uppsagnarbréf í síðustu viku en frá því að heimsfaraldurinn skall á hafa 1.200 flugmenn misst vinnuna.