Í samtali við The Telegraph sagði hann að margt bendi til að veiran hafi verið í umferð í töluverðan tíma og hafi vaknað til lífsins nýlega þegar faraldurinn braust út.
„Við neyðumst til að rannsaka uppruna þessarar veiru til að skilja hvaðan hún kom og hvernig hún stökkbreytist. Ég held að veiran hafi verið hér fyrir og með „hér“ þá á ég við alls staðar. Við erum kannski að glíma við veiru sem lá í dvala en vaknaði til lífsins vegna breytts umhverfis.“
Hann telur þar með ekki öruggt að veiran eigi upptök sín í Wuhan í Kína. Máli sínu til stuðnings benti hann á að spænskir vísindamenn segjast hafa fundið veiruna í skólpsýnum frá því í apríl á síðasta ári. Auk þess hafi smit greinst um borð í skemmtiferðaskipi við Falklandseyjar í febrúar þrátt fyrir að engir smitberar hafi verið um borð.
„Það var skemmtiferðaskip, sem sigldi frá South Georgia til Buenos Aires þar sem sýni voru tekin úr farþegunum, en skyndilega kom fyrsta smitið upp á áttunda degi þegar skipið var á siglingu.“
„Veirur hafa alltaf verið hér en skyndilega vekur eitthvað þær. Kannski að fólk býr svo þétt, umhverfisáhrif, það er þetta sem við eigum að skoða.“
Sagði hann.