Samkvæmt frétt The Wall Street Journal þá hefur flugfélagið átt í erfiðleikum með að finna lánveitendur sem vilja lána til kaupa á vélunum. Ástæða þess er að flugsamgöngur hafa að miklu leyti legið niðri mánuðum saman vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
American Airlines hefur pantað 76 vélar og á að fá þær afhentar á þessu ári. Boeing hefur unnið að því að finna fjármögnunarleið til að flugfélagið geti tekið við vélunum. Ein af þeim lausnum sem nú er verið að skoða er að fjárfestingafélag Boeing kaupi vélarnar og leigi þær síðan áfram til American Airlines.
Samtímis leggur Boeing nótt við dag við að reyna að sannfæra bandarísk flugmálayfirvöld um að Max vélarnar séu öruggar eftir þær breytingar sem hafa verið gerðar á þeim. Flugbann er í gildi á vélar af þessari tegund og því vill Boeing fá breytt svo hægt sé að taka vélarnar í notkun.