Hann sagði að tæplega helmingur þeirra 5.000 mála er varða njósnir, sem FBI rannsakar nú, tengist Kína. Wray hefur lengi verið þekktur gagnrýnandi á Kína og ummæli hans falla á sama tíma og samskipti þessara tveggja stærstu hagkerfa heimsins eru mjög stirð.
Hann sagði að nú væru Kínverjar að reyna að verða sér úti um upplýsingar frá bandarískum heilbrigðisstofnunum, lyfjafyrirtækjum og háskólum varðandi mikilvægar rannsóknir á COVID-19.
Wray er ekki einn um að hafa gagnrýnt Kínverja að undanförnu því það hafa Robert O‘Brien, þjóðaröryggisráðgjafi, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra, einnig gert. En þeir hafa ekki farið eins mikið út í smáatriði og Wray.
Að hans sögn þá hefur málum er varða njósnir, er tengjast efnahagskerfinu, tengdum Kína fjölgað um 1.300 prósent. Hann sagði að það gæti eiginlega ekki verið meira undir en í þessum málum og sá hugsanlegi efnahagslegi skaði sem væri hægt að valda Bandaríkjunum væri næstum því óskiljanlegur.
Að hans mati eru njósnir Kínverja mesta ógnin til langframa hvað varðar upplýsingatækni, hugverk og efnahagsmál.