Washington Post birti grein eftir Mueller á sunnudag þar sem hann gagnrýnir Trump fyrir ákvörðunina. Mueller var sérstakur saksóknari og stýrði rannsókn máls er sneri að hugsanlegum tengslum kosningaframboðs Trump við Rússa og tilrauna þeirra til að hafa áhrif á kosninganiðurstöðurnar 2016. Stone reyndi að hindra rannsóknina og bar ljúgvitni fyrir þingnefnd. Það var það sem kostaði hann fangelsisdóm.
„Ég finn mig knúinn til að koma með svar – bæði hvað varðar staðhæfingar um að rannsóknin hafi verið ólögmæt og að ástæðurnar hafi verið óheiðarlegar og þær staðhæfingar um að Roger Stone hafi verið fórnarlamb vinnu okkar.“
Segir Mueller meðal annars í greininni.
„Stone var sóttur til saka og dæmdur því hann hafði gerst sekur um afbrot. Hann verður áfram dæmdur glæpamaður og það er við hæfi.“
Með þessum orðum gengur Mueller þvert gegn yfirlýsingu Hvíta hússins um málið en í henni sagði að Stone hefði þjáðst nóg. Hann hefði fengið óréttláta málsmeðferð og væri nú frjáls maður.