Lögreglunni tókst að hlera símtöl meðlima glæpagengisins en þau fóru fram í gegnum forrit sem glæpamennirnir töldu vera öruggt vegna dulkóðunar. En lögreglunni tókst að brjótast inn í kerfið og hlera símtöl og fylgjast með samskiptum glæpamannanna.
Hollenska lögreglan lét síðan nýlega til skara skríða í vörugeymslu sunnan við Rotterdam. Þar voru sex handteknir. Í byggingunni voru sjö gámar og telur lögreglan að þeir hafi verið notaðir við fíkniefnasmygl. Í sex þeirra var búið að koma upp einhverskonar fangelsisaðstöðu, þar var hægt að binda fólk fast og loka inni. Í einum gámi var það sem lögreglan segir vera pyntingaklefa. Þar var tannlæknastóll sem hægt var að festa hendur og fætur fólks við. Einnig voru þar skæri, sagir, skurðhnífar og límband. Gámarnir voru hljóðeinangraðir og veggirnir klæddir álpappír til að ekki væri hægt að sjá inn í þá með hitamyndavélum. Í öllum gámunum voru hlekkir í gólfi og lofti.
Grunur leikur á að fólki hafi verið haldið föngnu og pyntað í gámunum og að lausnargjalds hafi verið krafist fyrir suma. Segir lögreglan að mannránin hafi verið vel skipulögð og hafi glæpamennirnir verið vopnaðir við þau, með fölsuð lögregluskilríki og lögreglubíla og íklæddir skotheldum vestum.