Í færslunni sagði Thomas að hann væri orðinn veikur og hvatti fólk til að fylgja reglum til að forðast smit.
„Vegna heimsku minnar hef ég stefnt heilsu móður minnar, systur minnar og fjölskyldu minnar í hættu. Þetta hefur verið sársaukafull upplifun.“
Skrifaði hann að sögn NBC.
„Þetta er ekkert grín. Ef þú þarft að fara út úr húsi, notaðu grímu og gættu að fjarlægðinni. Ekki vera heimskingi eins og ég. Ég vil þakka öllum vinum mínum sem hafa fært mér mat og öllum sem hafa verið til staðar fyrir mig.“
Í lok færslunnar skrifaði hann síðan:
„Ég vona að með guðs hjálp lifi ég þetta af. Elska ykkur öll.“
Eitt partý
Allt hófst þetta fyrr í júní þegar Thomas fór í samkvæmi með vinum og kunningjum í Kaliforníu. Fram að því hafði hann aðeins farið út úr húsi þegar nauðsyn krafði. Hann var í ofþyngd og með sykursýki og því í áhættuhópi.
Að sögn vinar hans breyttist viðhorf Thomas til varúðarreglna eftir að Gavin Newson, ríkisstjóri í Kaliforníu, sagði að slakað yrði á hömlunum. Í kjölfarið fór Thomas í fyrrnefnt samkvæmi.
Einn þátttakandinn var smitaður af kórónuveirunni og smitaði Thomas. Sá smitaði uppgötvaði smitið daginn eftir samkvæmið og hringdi í alla, sem þar höfðu verið, og lét þá vita en það var um seinan. Thomas var smitaður.
Hann fór í sýnatöku þann 16. júní og fékk niðurstöðuna þann 18. Hann lést þann 20. júní af völdum COVID-19.