Danska ríkisútvarpið segir að Paludan sé mjög ósáttur við dóminn sem hann segi „valda skaða á trúnni á lýðræði“. Hann segir dóminn algjörlega á skjön við dómvenjur.
Ákæran á hendur Paludan var í fjórtán liðum og sneri að kynþáttahatri, ærumeiðingum og gáleysislegum akstri. Hann var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, þar af eru tveir mánuðir skilorðsbundnir, og sviptur réttinum til að sinna lögmennsku í tengslum við sakamál næstu þrjú árin.
Hann var meðal annars sakfelldur fyrir að segja að „Danir og Danmörk séu allt of þróuð og fullkomin til að geta þrifist með lágtsettu múslímsku menningarrusli“.
Það var virt honum til refsiþyngingar að upptökur af þessum ummælum og fleiri voru birt á Facebooksíðu Stram Kurs og YouTube-rás flokksins.
Hann var einnig sakfelldur fyrir ærumeiðingar í garð konu af sómölskum ættum í mótmælum á síðasta ári. Hann þarf að greiða henni 30.000 danskar krónur í bætur. Í mótmælunum sagði Paludan hátt og skýrt:
„Þessa múslímsku sómölsku konu, sem stendur þarna, hef ég margoft séð á Istegade þar sem hún er reiðubúin til að taka á móti viðskiptavinum.“
Fyrir dómi sagði Paludan að hann hefði ekki meint að konan væri vændiskona en Istegade er þekkt vændisgata. Dómurinn tók ekki mark á þeirri skýringu hans.