Á þriðja hundrað hafa látist af völdum veirunnar í Suður-Kóreu og um 12.000 smit hafa greinst. Kim Gang-lip, varaheilbrigðisráðherra, sagði að smitið af völdum sölumanna Richway væri mikið áhyggjuefni því flestir hinna smituðu væru á sjötugs- og áttræðisaldri.
130 smit hafa verið rakin til risastórs vöruhúss sem Coupang rekur. Fyrirtækið hefur verið sakað um að hafa ekki fylgt þeim reglum sem hafa verið settar um forvarnir vegna heimsfaraldursins og að hafa látið veikt fólk vera í vinnu.
Í byrjun mars greindust um 500 smit á dag í landinu en yfirvöldum tókst að ná stjórn á faraldrinum með því að taka mikið af sýnum og með því að rekja ferðir smitaðra. En útbreiðsla veirunnar hefur aukist í höfuðborginni að undanförnu en þar búa um 26 milljónir manna, helmingur landsmanna. Yfirvöld reyna nú að ná stjórn á ástandinu á nýjan leik en búið var að slaka á ýmsum samfélagslegum hömlum og skólar höfðu verið opnaðir á nýjan leik.