Niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna að það getur verið jákvætt að vera með gen neanderdalsmanna í sér, sérstaklega fyrir konur sem vilja eignast börn. Þriðja hver evrópsk kona er með ákveðið gen, sem er frá neanderdalsmönnum, sem getur aukið líkurnar á að þær eignist börn. Danska ríkisútvarpið (DR)skýrir frá þessu.
„Þau gen, sem við fengum frá neanderdalsmönnum, geta bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif. Við höfum fundið dæmi um gen sem hefur jákvæð áhrif.“
Hefur DR eftir Hugo Zeberg, lektor við Karólínsku stofnunina í Svíþjóð, sem vann að rannsókninni. Hann sagði að niðurstöðurnar séu ekki bara heillandi heldur staðfesti þær einnig að kynhormónið prógesterón gegni mikilvægu hlutverki hvað varðar hættuna á að konur missi fóstur.