Johnson segir að heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi verið mikil hörmung fyrir Bretland og muni ríkisstjórnin rannsaka hvað fór úrskeiðis en nú sé ekki rétti tíminn til að rannsaka mistök stjórnmálamanna og yfirvalda eða hverjir brugðust.
„Þetta hefur verið algjör hörmung. Það er engin ástæða til að spara lýsingarnar. Ég tel að þetta hafi verið hrein martröð fyrir landið og að það hafi hrikt í grunnstoðum þess.“
Sagði hann í samtali við Times Radio.
Johnson, sem lá sjálfur á gjörgæsludeild um tíma með COVID-19, segir að ríkisstjórnin skuldi öllum þeim sem hafa látist af völdum veirunnar eða hafa þjáðst af hennar völdum að málið verði rannsakað gaumgæfilega, „hvað hafi farið úrskeiðis og hvenær“.
Hann sagði að gripið verði til umfangsmikilla opinberra fjárfestinga á vegum hins opinbera til að koma efnahagslífinu í gang, það væru að hans mati mikil mistök ef haldið yrði áfram á sparnaðarnótum á næstunni.
Hann sagði að ríkisstjórnin muni tvöfalda fjárfestingaráætlanir sínar miðað við það sem nú er en þær eru metnar á um 133 milljarða punda.