Maðurinn var að flytja blóðsýni, úr fólki sem hafði greinst með COVID-19, á milli bygginga læknaháskólans í Meerut. Skyndilega varð hann fyrir árás apahóps sem stal blóðprufunum og lagði síðan á flótta.
Meerut: Monkey run away with #corona test samples, locals fear spread of infection. #IndiaFightsCoronavirus pic.twitter.com/Mpe9tuR3H6
— Sanjay Jha (@JhaSanjay07) May 29, 2020
„Aparnir stálu og flúðu á brott með blóðprufur úr fjórum COVID-19 sjúklingum, sem fá meðferð hjá okkur. Við neyddumst til að taka ný blóðsýni úr þeim.“
Sagði S.K. Garg, yfirmaður við háskólann, að sögn Reuters.
Nokkru síðar náðust myndir af einum apanum þar sem hann sat í tré og virtist reyna að gæða sér á pokunum með blóðinu. Íbúar í nágrenni háskólans urðu að vonum mjög áhyggjufullir við þetta og óttuðust að þjófnaður apanna gæti orðið til þess að veiran myndi breiðast út á svæðinu.
Blóðpokarnir fundust aftur og talið er að litlar líkur séu á að veiran dreifist um svæðið því ekki var að sjá að öpunum hafi tekist að gera gat á pokana.