New York Times skýrir frá þessu og hefur eftir bandarískum embættismönnum. Upplýsingarnar hafa ekki fengist staðfestar opinberlega og yfirvöld í Rússlandi og Bandaríkjunum hafa neitað að tjá sig um þær og Talibanar sömuleiðis.
Fram kemur að það sé sérstaklega ein deild rússnesku leyniþjónustunnar sem sjónir manna beinist að en hún er sögð hafa heitið verðlaunum fyrir dráp á hermönnum bandamanna á sama tíma og Bandaríkin og Talibanar hafa reynt að semja um frið í þessu stríðshrjáða landi. Þessi sama deild hefur áður verið tengd við morðtilraunir og aðrar aðgerðir, sem þola illa dagsljós, í Evrópu. Markmiðið er sagt vera að raska því jafnvægi sem ríkir á Vesturlöndum.
New York Times hefur eftir heimildarmönnum sínum að Talibönum og/eða glæpamönnum, sem tengjast hryðjuverkasamtökunum, hafi verið boðnir peningar fyrir að drepa hermenn bandalagsþjóðanna og að þeir hafi fengið hluta af peningunum greidda.
Vitað er að 20 bandarískir hermenn voru drepnir í Afganistan á síðasta ári. Ekki liggur fyrir hvaða dráp tengjast verðlaunafénu.
Donald Trump og ríkisstjórn hans hafa að sögn fengið upplýsingar um málið og hvernig sé hugsanlega hægt að bregðast við en enn hefur ekki verið tekið ákvörðun um hvernig verður brugðist við.
Ef upplýsingar New York Times eru réttar þá þýðir það að „skuggahernaður“ Rússa gegn Vesturlöndum er kominn á nýtt stig. Í „skuggahernaði“ eru tölvuárásir, rangar fréttir og leynilegar aðgerðir mikilvægustu þættirnir.
Hvíta húsið þvertekur fyrir að Trump hafi fengið upplýsingar um málið og segir að Mike Pence, varaforseti, hafi heldur ekki fengið þær.
Sky hefur eftir breskum leyniþjónustumönnum að upplýsingar New York Times séu réttar.