Óvenjulega lítil úrkoma hefur verið í sumar og hitamet hafa víða fallið, ekki síst í maí. Þetta vekur sérstaklega miklar áhyggjur í Austur- og Mið-Evrópu þar sem bændur glíma nú þegar við mikla erfiðleika vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
Samkvæmt nýrri spá frá Copa Cogeca, sem eru samtök evrópskra bænda, þá er reiknað með að hveitiuppskeran verði 11,5% minni í ár en á síðasta ári. Samtökin segja að aðalástæðurnar fyrir þessu séu erfið ræktarskilyrði, vatnsskortur í vor og sýkingar af völdum skordýra.
GDACS, sem er samvinnuverkefni ESB og SÞ um viðvaranir vegna hamfara, segir að þurrkar hafi herjað síðan í lok febrúar á stóru svæði sem nær meðal annars yfir Frakkland, Þýskaland, Pólland, Austurríki, Tékkland, Ítalíu og Rúmeníu. Staðan er þó enn metin svo að líkurnar á alvarlegum afleiðingum séu „litlar“.
ESB hefur samt sem áður breytt spám sínum fyrir uppskeru nær allra tegunda vegna þurrkanna. Í mörgum ESB-ríkjum eru yfirvöld sérstaklega á varðbergi vegna ástandsins því auk þess að hafa áhrif á landbúnaðinn þá óttast fólk skógarelda eins og hafa geisað síðustu tvö sumur.