Í nýrri rannsókn danskra vísindamanna voru sýni tekin úr 200 manns, sem höfðu smitast af veirunni og náð sér, til að kanna hvort hún greindist í þeim á nýjan leik. Smit greindist í um 20% þátttakendanna. TV2 skýrir frá þessu.
Haft er eftir Martin Tolstrup, lækni og lektor í smitsjúkdómafræðum við Árósaháskóla, að niðurstaðan hafi komið honum á óvart. Hann vann að rannsókninni. Hann sagði að sýnin hafi verið tekin þegar að minnsta kosti fjórar vikur voru liðnar frá því að fólkið var úrskurðað fullfrískt. Af þeim sökum hafi þess ekki verið vænst að veiran væri enn í svo mörgum. Sýni voru tekin úr hálsi fólksins en rannsóknin beindist aðallega að þróun mótefna í líkama sjúklinga eftir smit. Einnig voru tekin blóðsýni úr fólkinu. Hjá sumum fannst „töluvert magn af veirunni“.
Sömu niðurstöður hafa einnig komið fram við rannsóknir í Suður-Kóreu og Færeyjum. Tolstrup sagði að ekki væri ástæða til að ætla að fólkið smitaði enn frá sér.