Þegar kórónuveirufaraldurinn braust út í Noregi var strax hafist handa við að rannsaka hvort fólk væri með mótefni. Búið er að taka sýni úr 3.000 manns í Osló til rannsóknar.
Miðað við niðurstöður rannsóknarinnar þá er aðeins um eitt prósent landsmanna sem er með mótefni í blóðinu. Þetta hefur komið vísindamönnum á óvart og hefur Norska ríkisútvarpið eftir Fridtjof Lund-Johansen, lækni við háskólasjúkrahúsið í Osló, að þetta geti bent til flestir sem smitast af veirunni veikist en smitið sé ekki eins útbreitt og talið hefur verið.
Til að geta borið útbreiðsluna saman við eitthvað eru vísindamennirnir einnig að rannsaka aðra kórónuveiru sem veldur venjulegu kvefi. Í þeirri rannsókn er niðurstaðan önnur, næstum allir eru með mótefni gegn kvefi. Þetta segir Lund-Johansen vera mjög spennandi.
„Við vitum að þetta er kórónuveira og að það er einnig kórónuveira sem veldur venjulegu kvefi. Það getur verið að þeir sem hafa verið kvefaðir hafi ákveðið ónæmi gegn nýju veirunni.“
Margar rannsóknar hafa farið fram og standa yfir um allan heim á nýju veirunni. Margir vísindamenn hafa einmitt komist að sömu niðurstöðum og þeir norsku.