Fyrr á árinu sýknaði öldungadeild Bandaríkjaþings, þar sem flokksbræður Trump í repúblikanaflokknum eru í meirihluta, hann af ákæru um misbeitingu valds þegar hann hafi reynt að þrýsta á stjórnvöld í Úkraínu til að hafa sjálfur ávinning af því pólitískt. Bolton segir að þingið hefði ekki átt að einskorað rannsókn sína og ákæru við þetta, það hefði átt að taka breiðara svið fyrir.
„Ef talsmenn demókrata hefðu ekki verið svo helteknir af Úkraínumálinu hefðu þeir gefið sér tíma til að rannsaka kerfisbundið framgöngu Trump á vettvangi utanríkismála. Þá hefði málið kannski endað á annan hátt.“
Skrifar Bolton í bók sinni eftir því sem segir í umfjöllun Washington Post og New York Times um hana.
En það er fleira athyglisvert sem kemur fram í bókinni. Til dæmis segir Bolton að þegar Trump hitti Xi Jinping, forseta Kína, í Japan í júní á síðasta ári hafi hann tengt refsitolla á kínverskar vörur við áætlun sína um að ná endurkjöri í forsetakosningunum í nóvember. Bolton segir Trump hafa beðið Xi um að kaupa sojabaunir og hveiti frá Bandaríkjunum til að aðstoða hann við að sigra í landbúnaðarríkjunum.
„Hann grátbað Xi að tryggja að hann myndi sigra.“
Segir Bolton.
Þessi ásökun er af sama meiði og sú sem þingið tók fyrir í ársbyrjun en þá var hann ákærður fyrir að hafa beitt úkraínsk stjórnvöld þrýstingi til að hefja rannsókn á Joe Biden, fyrrum varaforseta, sem var þá nefndur til sögunnar sem væntanlegur andstæðingur Trump í forsetakosningunum.
Bolton segir einnig að Trump hafi gefið Xi grænt ljós á að halda áfram að reisa fangabúðir, sem sumir segja ekkert annað en útrýmingarbúðir, fyrir Uighur-múslima en talið er að rúmlega ein milljón þeirra sé nú í svona búðum.
„Túlkurinn okkar segir að Trump hafi sagt Xi að hann gæti haldið áfram að reisa búðirnar en það taldi Trump rétt að gera.“
Bolton segir einnig að Trump hafi ítrekað reynt að stöðva lögreglurannsóknir sem hafi farið illa í einræðisstjórnirnar í Kína og Tyrklandi.
„Munstrið var að leggja stein í götu rannsókna, það var eins og lífsstíll.“
Bolton segist hafa tilkynnt William Barr, trúum og tryggum dómsmálaráðherra í stjórn Trump, þetta en hann hafi hunsað þetta.
Bolton dregur upp ófagra mynd af Trump í bókinni og segir hann vera óhæfan sem forseta, vænisjúkan og fáfróðan. Hann er til dæmis sagður hafa spurt hvort Finnland væri hluti af Rússlandi og vissi ekki að Bretland er kjarnorkuveldi. Bolton segir einnig að Trump hafi sagt að suma fréttamenn ætti „að taka af lífi“.
Bolton segir einnig tímaeyðslu að reyna að fara yfir leyniþjónustuskýrslur með forsetanum því hann kjósi helst að hlusta á sjálfan sig.