Þau höfðu meðal annars fengið senda grímu, sem líktist blóðugu svínsandliti og þurrkað svínafóstur. Einnig var parinu sendur ýmiss annar varningur og þau fengu send fréttabréf sem þau höfðu ekki gerst áskrifendur að sjálf.
Í þessari viku kom svo í ljós að það var eBay sem stóð á bak við þetta rafræna einelti, sem átti að fá parið til að hætta að birta gagnrýni á netinu. Eða réttara sagt sex starfsmenn tæknifyrirtækisins, en þeim hefur nú verið sagt upp störfum, þeir hafa einnig verið kærðir fyrir aðild sína að málinu. Meðal þeirra er háttsett fólk sem sinnti öryggismálum og yfirmaður samskiptamála, einnig hefur fyrrverandi yfirmaður hjá eBay, Devin Wenig, verið viðriðinn málið.
Skilaboð á milli starfsmannanna og önnur gögn í málinu, sína samkvæmt FBI að starfsmennirnir og yfirmenn hafi verið orðnir þreyttir á blogg parsins, sem birti gagnrýna pistla um eBay. Það átti að stoppa parið, með því að hræða þau og áreita svo mikið að þau myndu hætta með bloggið.
Dagana eftir að parið fékk hin ógnandi skilaboð héldu þau áfram að fá senda pakka og bréf. Meðal þess sem þau fengu var bók, sem fjallaði um það hvernig maður upplifir lát maka, sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en sem illa dulda morðhótun.
Nágrannar þeirra fengu einnig sent klámfengið efni, sem merkt var parinu. Málið varð svo enn undarlegra þegar þau fengu sendar lifandi lirfur, köngulær og kakkalakka í póstinum. Á sama tíma voru send út skilaboð á netinu, um að parið héldi opið hús, eða að þau leituðu að þriðja aðila til að taka þátt í kynlífi með þeim.
Hjá eBay er fólk miður sín yfir málinu og segir að þeim sex sem tóku þátt, hafi verið sagt upp, um leið og upp komst um málið síðasta haust.
Þrátt fyrir að hinn fyrrverandi yfirmaður, Devin Wenig, hafi ekki verið kærður, viðurkennir eBay að hann hafi einnig átt í óviðeigandi samskiptum um áreitið. Samkvæmt fréttamiðlinum, The Verge samþykkti hann að parið yrði áreitt og sagði að það yrði að stoppa þau.
Yfirvöld hafa ekki gefið upp nöfn parsins, en samkvæmt gögnum í málinu er bloggið sem um ræðir ecommercebytes.com.