Samkvæmt frétt Norska ríkisútvarpsins fékk lögreglan fjölmargar tilkynningar um að skotið hefði verið úr haglabyssu í Stoa í Arendal. Í ljós kom að þrír karlmenn, á aldrinum 20 til 30 ára, höfðu verið skotnir. Einn er alvarlega særður en hinir sluppu minna særðir.
Fljótlega lá ljóst fyrir að árásarmaðurinn hafði komið akandi á vettvang og yfirgefið hann í sama bíl. Lögreglan hóf þegar mikla leit að honum en vitað var hver var að verki. Hann var handtekinn á heimili sínu um tveimur og hálfri klukkustund eftir að tilkynningin um árásina barst.
Hinn handtekni er á þrítugsaldri og hefur áður komið við sögu lögreglunnar. Lögreglan hefur ekki viljað segja neitt um tengsl hans við fórnarlömbin annað en að ekki sé ástæða til að ætla að mennirnir tengist ákveðnum hópum. Unnið er að rannsókn málsins en sjö til tíu vitni voru að árásinni.