Sendinefnd SÞ í Líbíu skrifaði á Twitter að hún hafi haft spurnir af því að minnst átta fjöldagrafir hafi fundist síðustu daga, flestar í Tarhuna. Einnig segir í tístinu að yfirvöld verði nú þegar að hefja opna og gagnsæja rannsókn á fjöldagröfunum.
Tarhuna er suðaustan við höfuðborgina Trípólí og náði stjórnarherinn bænum á sitt vald 5. júní.
Fréttamaður AFP hafði aðgang að svæði þar sem fjöldi líka fannst og segir hann að fatnaður fólks hafi verið á dreif í kringum nýtekna gröf.
Forstjóri sjúkrahúss í Tarhuna segir að 160 lík hafi fundist í kapellu þegar stjórnarherinn náði bænum á sitt vald. Líkin voru flutt til Trípólí og Misrata og sá Rauði krossinn um það.
Á fimmtudaginn ákvað dómsmálaráðherra landsins að rannsóknarnefnd verði sett á laggirnar til að rannsaka málin.
Tarhuna gegndi mikilvægu hlutverki fyrir uppreisnarher Haftar í baráttu hans við ríkisstjórn landsins. Rússland, Egyptaland og Sameinuðu arabísku furstadæmin styðja uppreisnarherinn. Stjórnarherinn hefur sótt hart að herjum Haftar að undanförnu og hefur notið aðstoðar Tyrkja í þeirri sókn.