Sky skýrir frá þessu. Fram kemur að í rannsókninni komi fram að miklu fleira fólk hafi komið á sjúkrahús í Wuhan í nokkra mánuði áður en tilkynnt var um tilvist veirunnar. Þessari niðurstöðu komust þeir að með því að telja bíla sem var ekið að sjúkrahúsunum. Er þá miðað við þann fjölda sem reikna mátti með að kæmi á sjúkrahús á þessum árstíma miðað við reynslu fyrri ára.
Í rannsókninni, sem hefur ekki verið ritrýnd, er því haldið fram að þetta geti bent til að kórónuveiran hafi breiðst mun fyrr út í Wuhan en kínversk yfirvöld hafa sagt. Auk gervihnattarmyndanna byggja vísindamennirnir niðurstöðu sína á aukinni umferð á kínversku leitarvélinni Baidu þar sem fólk leitaði upplýsinga um einkenni kórónuveirusmits.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort gervihnattarmyndirnar séu allar frá sömu vikudögum eða sama tíma dags. Það getur skipt máli um hvort hægt er að bera þær beint saman. Einnig hafa verið settar fram efasemdir um tölvutæknina sem var notuð við að telja bíla á myndunum.
Talskona kínverska utanríkisráðuneytisins vísaði niðurstöðum rannsóknarinnar algjörlega á bug og sagði fáránlegt að komast að þessari niðurstöðu á grunni yfirborðslegra athugana á umferð.