Í umfjöllun breskra fjölmiðla kemur fram að svart fólk og fólk ættað frá meðal annars Indlandi og Bangladess sé í mun meiri hættu á að látast af völdum COVID-19 en hvítt fólk. Breska hagstofan segir að þetta sé einnig raunin þegar búið er taka tillit til hinna ýmsu félagslegu þátta.
Breskir vísindamenn segja að mikið skorti á þekkingu þeirra á veirunni. Þeir benda einnig á að mikill munur sé á dánartíðni hinna ýmsu þjóðfélagshópa hvað varðar kyn, aldur og uppruna. Þeir segja að væntanlega leynist mörg svör í erfðafræðinni sem muni koma í ljós á meðan unnið er að þróun bóluefnis eða lyfja gegn sjúkdómnum.
Þegar búið er að taka tillit til félagshagfræðilegra þátta eru 4,2 sinnum meiri líkur á að svartir karlar látist af völdum COVID-19 en hvítir. Hjá konunum eru 4,3 sinnum meiri líkur á að þær svörtu látist en hvítar.
Karlar frá Indlandi og Pakistan eru 1,8 sinnum líklegri til að deyja af völdum sjúkdómsins en hvítir.
Tölur frá Bandaríkjunum hafa einnig sýnt að meiri líkur séu á að svart fólk látist af völdum sjúkdómsins en hvítt.