Fyrr í mánuðinum sýndi Sky upptökur úr líkbrennslum og líkhúsum í Mexíkóborg. Á þeim sáust líkpokar út um allt, geymslur höfðu meira að segja verið teknar í notkun til að geyma lík í.
Sky skýrði einnig frá því að mun fleiri lík hefðu verið brennd að undanförnu en opinberar dánartölur gátu skýrt. Samkvæmt nýjustu opinberu tölum hafa tæplega 2.000 látist af völdum COVID-19 í Mexíkóborg en sú tala er dregin mjög í efa.
Tvær óháðar rannsóknir hafa leitt í ljós að til og með 20. maí voru gefin út 39.173 dánarvottorð í borginni. Á síðustu fjórum árum hefur meðaltal sama tímabils verið 31.101 dánarvottorð. Það hafa því um 8.000 fleiri látist í borginni á þessu ári en að meðaltali á síðustu fjórum árum. Ekki er þó öruggt að allir hafi látist af völdum kórónuveirunnar, sumir gætu til dæmis hafa látist af því að þeir þorðu ekki að leita til læknis af ótta við að smitast af veirunni. Sérfræðingar segja að þörf sé á að kafa dýpra ofan í málið.