Eiginkona Derek Chauvin, lögregluþjónsins sem var rekinn og kærður fyrir morðið á George Floyd, hefur sótt um skilnað. Frá þessu greinir New York Post.
„Henni er mjög brugðið vegna dauða herra Floyd,“ segir í tilkynningu frá henni, Kellie Chauvin. „Hún vottar fjölskyldu hans, þeirra sem voru nánir honum og annara sem syrgja innilega samúð.“
„Hún hefur sótt um skilnað.“ segir einnig í tilkynningunni. Hjónin áttu engin börn saman.
Derek var handtekinn í seinustu viku eftir að myndband náðist af honum við störf með hné sitt á George Floyd sem að kafnaði.
Líklega hefur það farið fram hjá fáum að myndbandið, sem var tekið upp í Minnesota-fylki hafi vakið upp mikla reiði um öll Bandaríkin. Þessa stundina er mikið um mótmæli þar í landi vegna málsins, en þau varða rótgróna kynþáttamismunun.