Mark Zuckerberg, stofnandi þessa stærsta samfélagsmiðils heims, segist reikna með að um helmingur starfsfólksins muni vinna að heiman innan tíu ára. Nú muni fyrirtækið hefja sókn í að ráða fólk, sem ekki er búsett í Silicon Valley þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru, til starfa.
En þessu fylgir að þeir sem munu vinna fjarri Silicon Valley munu væntanlega ekki fá jafn há laun og þeir sem starfa í höfuðstöðvunum en starfsfólk þar fær að sögn góð laun greidd enda er allt annað en ódýrt að búa þar.
„Við borgum mjög góð laun, í raun þau bestu á markaðnum en við borgum miðað við markaðstaxta. Hann er breytilegur á milli staða og við munum halda þeirri stefnu áfram.“
Sagði Zuckerberg um þetta.
Tæplega 50.000 manns starfa hjá Facebook. Tilkynning Zuckerberg gæti hafa mikil áhrif á San Fransisco, sem er nærri Silicon Valley, þar sem bæði húsnæðismarkaðurinn og almenningssamgöngukerfið eru undir miklum þrýstingi vegna hins mikla fjölda sem starfar í Silicon Valley.
Facebook stefnir á að byggja þrjár nýjar starfsstöðvar nærri Atlanta, Dallas og Denver til að starfsfólk, sem býr þar nærri, geti hist öðru hvoru.