Þriðjungur staðfestra smittilfella í landinu hefur verið í New York og nágrannaríkjunum New Jersey og Connecticut. Þar hefur einnig helmingur allra dauðsfalla af völdum veirunnar í landinu verið skráður.
New York Times segir að nú sé veiran farin að dreifa meira úr sér í strjálbýlli ríkjum og þar fer smitum fjölgandi. Nú eru lítil og fámenn samfélög farin að rata í fréttirnar vegna smittilfella. Má þar nefna Trousdale í Tennessee, Dakota í Nebraska og Lincoln í Arkansas. Þetta eru þau svæði þar sem flest smit hafa nú greinst miðað við höfðatölu.
Á þessum svæðum hafa smit brotist út á svæðum þar sem lítið sem ekkert var um smit þar til nýlega. En þar sem smit hefur borist inn í eitt fyrirtæki eða stofnun hefur smitið átt auðvelt með að dreifast út. Þetta á til dæmis við um elliheimili, geðsjúkrahús, fangelsi, stór sláturhús og kjötvinnslur.