„Ég næ ekki andanum.“ Var eitt af því síðasta sem maðurinn, hinn fertugi George Floyd, sagði á mánudaginn áður en hann lést. Hann lá þá ber að ofan á götu úti í Minneapolis. Búið var að handjárna hann en lögreglumaður hélt honum föstum á götunni með því að þrýsta hné sínu á háls hans og hnakka.
Atburðurinn var tekinn upp og hefur myndbandið vakið mikinn óhug en það hefur verið í mikilli dreifingu á netinu. Ekki sést á upptökunni hvað gerðist áður Floyd var handtekinn.
Á upptökunni heyrist Floyd grátbiðja lögreglumanninn um að fjarlægja hné sitt en hann varð ekki við því. Að lokum missti Floyd meðvitund og var úrskurðaður látinn við komuna á sjúkrahús. Í bakgrunni upptökunnar heyrist þegar fólk hvetur lögreglumanninn til að fjarlægja hné sitt af Floyd.
Myllumerkið „#IcantBreathe“, sem voru síðustu orð Floyd, fer nú mikinn á samfélagsmiðlum ásamt hinu þekkta slagorði „black lives matter“.
His name was George Floyd. Say his name. Pray for his family. Demand Justice. #BlackLivesMatter #JusticeForGeorgeFloyd
— Black Lives Matter (@Blklivesmatter) May 26, 2020
Lögreglan í Minneapolis sendi frá sér fréttatilkynningu á mánudaginn þar sem kom fram að lögreglumanninum, sem lá með hné á hálsi Floyd, hefði verið vikið frá störfum en héldi launum á meðan rannsókn færi fram. Einnig kom fram að lögreglan hafi verið send á vettvang eftir að tilkynnt var um svik. Þegar lögreglumenn komu á staðinn hafi Floyd verið þar sitjandi í bíl.
„Honum var skipað út úr bílnum. Eftir að hann kom út úr honum veitti hann mótspyrnu. Lögreglumönnum tókst að handjárna hann og veittu því athygli að hann þyrfti á læknisaðstoð að halda. Kallað var eftir sjúkrabifreið. Hann var fluttur með sjúkrabifreið til Hennepin County Medical Center þar sem hann lést skömmu síðar.“
Segir í tilkynningunni.
Eftir þessa tilkynningu vatt málið enn frekar upp á sig því alríkislögreglan FBI var fengin til að rannsaka það og þremur lögreglumönnum til viðbótar var vikið úr starfi að því er Jacob Frey, borgarstjóri, skrifaði á Twitter.
„Það sem ég sá var svo rangt. Það að vera svartur í Bandaríkjunum á ekki að vera dauðadómur.“
Skrifaði hann meðal annars.