Fyrirtækið Morse Genealogical Services opnaði nýlega vefsíðu til að auðvelda hugsanlegum erfingjum Epstein að komast í samband við fyrirtækið. Samkvæmt umfjöllun The Sun hafa 386 manns nú þegar haft samband við fyrirtækið. 130 þeirra segja að Epstein sé faðir þeirra.
Epstein framdi sjálfsvíg þegar hann sat í gæsluvarðhaldi í fangelsi í New York þar sem hann beið réttarhalda. Hann var ókvæntur en talið er að hann hafi átt nokkur börn.
„Jeffrey Epstein var svo lauslátur í svo langan tíma að það eru töluverðar líkur á að hann eigi barn.“
Hefur The Sun eftir Harvey Morse, stofnanda Morse Genelogical Services.
Meðal eigna Epstein eru stórt hús á Manhattan í New York, búgarður í Nýju-Mexíkó og einkaeyja hans í Karabískahafinu sem hefur verið nefnd „barnaníðingseyjan“. Auk þess átti hann fjölda bíla.
20 konur hafa sakað Epstein um að hafa beitt þær kynferðisofbeldi þegar þær voru á barnsaldri. Mörg málanna fara fyrir dóm því konurnar krefjast bóta og samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla má reikna með að stór hluti eigna Epstein fari í að greiða konunum bætur.