Danir, Norðmenn og Finnar hafa gripið til mun harðari aðgerða en Svíar til að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar og sýna tölur yfir fjölda látinna það kannski vel. Svíar eru í öðru sæti yfir fjölda látinna á hverja 100.000 íbúa í Evrópu. Aðeins í Belgíu er hlutfallið hærra.
Mika Salminen, landlæknir í Finnlandi, telur að af þessum sökum sé miklu meiri áhætta að opna landamæri Finnlands að Svíþjóð en að opna fyrir ferðir fólks frá Danmörku og Noregi.
„Þannig er þetta, því miður. Þetta er pólitísk ákvörðun en hin miklu munur á smiti í löndunum er staðreynd og ég ímynda mér að ríkisstjórnin hafi skilning á því og taki það með í reikninginn þegar ákvörðun verður tekin.“
Finnska ríkisstjórnin er því að kanna það þessa dagana hvort hægt sé að undanskilja Svía frá opnun landamæranna og leyfa Dönum og Norðmönnum að koma til landsins. Þetta er sama hugsun og margir danskir stjórnmálamenn hafa viðrað en þeir segja að ekki eigi að opna landamærin að Svíþjóð ef það er ekki forsvaranlegt út frá heilbrigðissjónarmiðum.
Svíar eru ekki sáttir við hik Norðurlandanna við að opna á ferðalög til og frá landinu og Anna Hallberg, ráðherra norrænnar samvinnu, sagði í samtali við Aftonbladet að þetta væri ósanngjörn mismunun.