Um helgina kom fram að alsaklaus maður hafi blandast inn í málið til viðbótar við þá tvo sem hafa verið handteknir vegna þess en þó látnir lausir. Þeir handteknu eru Tom Hagen, eiginmaður Anne-Elisabeth, og maður um þrítugt sem er sérfræðingur í rafmyntum. Lausnargjaldskrafa var sett fram í upphafi málsins og átti að greiða lausnargjaldið með rafmynt. Lögreglan grunar báða mennina um að eiga aðild að hvarfi Anne-Elisabeth og hugsanlega morði.
Samkvæmt frétt Dagbladet þá hefur netfangið, sem hinir meintu mannræningjar, notuðu til samskipta við Tom Hagen lengi verið ein mikilvægasta vísbending lögreglunnar í málinu. Netfangið var notað til að skrá rafmyntareikning þann sem greiða átti lausnargjaldið inn á og til samskipta við Tom Hagen.
Blaðið segist hafa heimildir fyrir að netfangið tilheyri alsaklausum manni sem tengist Tom Hagen ekki neitt og heldur ekki hvarfi Anne-Elisabeth. Lögreglan er sögð hafa rakið netfangið til manns sem býr í suðurhluta Noregs. Ekki er annað að sjá en netfanginu hafi verið stolið frá honum af þeim sem þóttust hafa rænt Anne-Elisabeth. Lögreglan hefur rætt við manninn sem vill ekki tjá sig neitt um málið við fjölmiðla.