Einn kórfélaganna hafði verið með inflúensueinkenni í þrjá daga en mætti samt á æfinguna. Síðan liðu tvær vikur án þess að yfirvöld í ríkinu áttuðu sig á að heimsfaraldur kórónuveirunnar hafði náð þangað. Þá hófust þau handa við að setja fólk í sóttkví og einangrun.
En á fyrrnefndri kóræfingu voru 62 söngvarar. Tveimur dögum eftir æfinguna voru að minnsta kosti sex þeirra komnir með smiteinkenni og tveimur vikum síðar var fjöldinn kominn upp í 53. Tveir þeirra létust segir CNN.
Bandaríska smitsjúkdómastofnunin CDC fjallaði um málið í síðustu vikuskýrslu sinni og notar það til að hvetja fólk til að forðast að safnast saman í hópum, halda góðri fjarlægð á milli sín og nota andlitsgrímur.
Á kóræfingunni sátu félagarnir á stólum með 15 til 25 sm bili. Á miðri æfingunni tóku þeir hlé og borðuðu kökur og appelsínur. Að æfingu lokinni hjálpuðust þeir að við að stafla stólunum.
Þeir voru meðvitaðir um að heimsfaraldur kórónuveiru var skollinn á og slepptu því að faðmast eða takast í hendur og notuðu handspritt þegar þeir mættu á æfinguna.
Ekki er vitað nákvæmlega hvernig smitið barst á milli þeirra en CDC segir að hugsanlega hafi það borist með litlum dropum sem komu frá útöndun hins smitaða.