Ryanair, sem er stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, ætlar að fljúga 1.000 flug á dag frá 1. júlí en það er umtalsverð aukning frá þeim 30 ferðum sem eru farnar á dag þessar vikurnar.
Félagið hefur eins og flest önnur flugfélög ekki farið varhluta af heimsfaraldri kórónuveiru og þurft að draga úr umsvifum sínum.
Eddie Wilson, forstjóri félagsins, segir að eftir fjögurra mánaða stopp sé kominn tími til að Evrópa komist aftur á flug svo fólk geti hitt vini og ættingja og komist til vinnu. Einnig þurfi að endurræsa ferðamannaiðnaðinn í álfunni.
Breska ríkisstjórnin tilkynnti um helgina að þeir flugfarþegar sem koma til landsins frá öðrum löndum þurfi að fara í tveggja vikna sóttkví. Bretland er einn stærsti markaður Ryanair. Michael O‘Leary, aðalforstjóri Ryanair, segir þetta vera „heimskulegt“. Auk þess sé ógerlegt að framfylgja þessu og því muni fólk væntanlega hunsa þetta.