Eflaust þykir mörgum þetta undarlegt enda ekki bara hægt að setja snjó í poka og geyma fram á haustið. En Marko Mustonen, framkvæmdastjóri Levi, er stórhuga eins og hann skýrði frá í samtali við BBC.
Hann ætlar að reyna að geyma um 150.000 rúmmetra af snjó þar til í haust til að geta lengt haustopnunina. Ef þetta gengur upp geta finnskir skíðamenn brugðið sér á skíði strax í október.
Starfsfólk skíðasvæðisins hefur nú í einn mánuði unnið baki brotnu við að safna 150.000 rúmmetrum af snjó sem einangrandi dúkur hefur nú verið lagður yfir. Hann á að sögn að geta varið snjóinn fyrir bæði rigningu og sumarhitum. Reiknað er með að bráðnunin verði aðeins 5 til 10 prósent fram á haust.