Manshaus sagði fyrir dómi í síðustu viku að hann hefði farið inn í moskuna með það að markmiði að drepa eins marga og hann gæti. Skömmu eftir að hann var kominn inn í moskuna yfirbugaði hinn 65 ára Mohammed Rafiq hann. Nokkrum skotum var hleypt af en enginn þeirra þriggja sem voru til staðar urðu fyrir þeim.
Í gær skýrðu lögreglumenn frá aðkomunni á vettvang. Þeir sögðu að mikið blóð hafi verið á Manshaus og hann hafi verið fölur. Þeir hafi því talið hann hefði verið skotinn en svo var ekki, hann hafði fengið skurð á hnakkann.
Manshaus var ekki samvinnuþýður til að byrja með en síðan fór hann að vilja ræða við lögreglumennina. Það fyrsta sem hann sagði þeim var að það væri hættulegt að vera í moskunni og að þeir yrðu að koma sér á brott en skýrði ekki frekar af hverju.
Hann bað síðan lögreglumann um að skoða hendurnar sínar og sagði síðan að þeir væru bræður og aðrir sem væru til staðar væru bara sori. Þar á hann væntanlega við þá skoðun sína að fólk af öðrum kynþáttum en hvítum sé óæðra en Manshaus er heltekinn af öfgahyggju og hatri á minnihlutahópum.
Manshaus segist hafa verið undir áhrifum frá Brenton Tarrant sem myrti 51 í mosku í Christchurch á Nýja-Sjálandi í mars á síðasta ári.