Samkvæmt frétt CNN þá var tilkynnt um fyrsta smittilfellið í einn mánuð í Wuhan í gær. Þetta vekur áhyggjur um að önnur bylgja faraldursins sé nú að skella á.
Í borginni Shulan í Jilin héraðinu greindust 11 smit á laugardaginn. Þar var strax gripið til ráðstafana og hömlur settar á líf íbúa. Veitingastöðum var lokað en þó er heimilt að selja mat til heimsendinga og sækninga. Almenningssamgöngur voru stöðvaðar sem og önnur opinber starfsemi.
Fólk má ekki safnast saman og aðeins einn úr hverri fjölskyldu má fara út til að versla hverju sinni. Ekki hefur verið gefið út hversu lengi þessar ráðstafanir eiga að gilda. Yfirvöld telja mikla hættu á að faraldur brjótist út í borginni.