Í byrjun síðustu viku sagði franski læknirinn Yves Cohen að smit hefði nú verið staðfest í sjúklingi sem lá á sjúkrahúsi í París í lok desember. Áður var talið að fyrsta staðfesta smitið í Evrópu hefði komið upp í lok janúar.
Í lok síðustu viku tilkynnti hópur franskra röntgenlækna að þeir hefðu farið yfir röntgenmyndir af 2.500 sjúklingum, sem leituðu til Albert Schweitzer sjúkrahússins í Colmar, frá því í nóvember þar til í apríl. France Bleu skýrir frá þessu.
Læknarnir leituðu að grunsamlegum myndum og þegar slíkar fundust var farið ofan í kjölinn á sjúkraskýrslum viðkomandi.
Í ljós kom að röntgenmynd, sem var tekin 16. nóvember, sýndi að mjög líklega hafi viðkomandi sjúklingur verið með COVID-19. Þennan sama dag var fyrsta smitið staðfest í Kína en talið hefur verið að það hafi verið fyrsta tilfellið í heiminum.
Frönsku læknarnir fundu í allt 16 tilfelli í nóvember og desember þar sem flest bendir til að sjúklingarnir hafi verið smitaðir af veirunni.
Michel Schmitt, yfirlæknir á röntgendeild sjúkrahússins, sagði í samtali við France Bleu að þetta hafi í raun ekki komið á óvart. Margir þeirra hafi undrast undarlega inflúensu í haust. Hún hafi varað lengur en venja er og meiri verkir fylgt henni auk hás hita og þreytu.
Þá vaknar spurningin um af hverju veiran hefur verið komin til Colmar í Frakklandi í nóvember og að þar hafi 16 Frakkar smitast.
Svarið gæti tengst því að Colmar er vinsæll ferðamannastaður hjá Kínverjum af því að kínverska raunveruleikaþáttaröðin „Chineese Restaurant“ er tekin upp á svæðinu. Frakkarnir gætu því hafa smitast af Kínverjum sem voru á ferð í Colmar. Frönsk yfirvöld reyna nú að finna út hvort svo hafi verið.