Carole Baskin var allt annað en sátt við meðferðina sem tígrisdýrin fengu hjá Joe en hún rekur Big Cats Rescue dýraathvarfið þar sem kattardýr fá að eyða ævinni. Til að losna við að heyra meira frá henni fékk Joe leigumorðingja til að gera út af við hana. Það kostaði hann 22 ára fangelsisdóm þrátt fyrir að Carole hafi ekki verið myrt.
Í Tiger King kemur fram að annar áhugamaður um tígrisdýr, Jeff Lowe, hafi tekið við rekstri G.W. Zoo en þrátt fyrir það eru mörg af tígrisdýrum Joe nú farin úr garðinum og eru í dýraathvarfi en þó ekki hjá Carole. 39 tígrisdýr og þrír birnir voru fluttir úr G.W. Zoo í Oklahoma til Keenesburg í Colorado þar sem dýrin munu eyða restinni af ævinni í Wild Animal Sanctuary. CNN skýrir frá þessu.
Í nóvember 2017 var sú ákvörðun tekin að Jeff Lowe, sem nú á G.W. Zoo, skyldi afhenda athvarfinu í Colorado dýrin. Þar eru rúmlega 520 dýr sem hefur verið tekið við úr dýragörðum og frá einstaklingum. Þar á meðal eru tígrisdýr, birnir, úlfar og hýenur.
Munurinn á Wild Animal Sanctuary og G.W. Zoo er að í þeim fyrrnefnda er tekið við dýrum frá öðrum og reynt að veita þeim gott líf. Þau eru ekki notuð til undaneldis og gestir fá ekki að snerta þau. Þar hafa dýrin einnig mikið pláss til að hreyfa sig og þau fá gott fæði. Í G.W. Zoo fengu dýrin gamalt kjöt frá stórmarkaði en nú fá þau mat sem fullnægir næringarþörf þeirra segir Becca Miceli eigandi garðsins.