Í umfjöllun blaðsins er bent á að flestir jafni sig á COVID-19 á um viku og margir viti jafnvel ekki með vissu að þeir hafi verið smitaðir. Fólki sé ráðlagt að halda sig heima, hvílast og taka verkjalyf. Í 80% tilfella dugi þetta til.
Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa ráðlagt fólki að leita til læknis ef einkenni sjúkdómsins, aðallega þurr hósti, hiti og þreyta, ganga ekki yfir á viku eða versna.
Johnson hefur ekki náð sér á fyrstu viku sjúkdómsins og var lagður inn á sjúkrahús til að gangast undir frekari rannsóknir en The Guardian telur ólíklegt að hann hefði verið lagður inn á sjúkrahús nema heilsu hans hafi hrakað enda sé heilbrigðiskerfið undir gríðarlegu álagi. Blaðið telur að nú verði líklega teknar lungnamyndir af honum til að rannsaka hvort hann sé með lungnabólgu og að margvíslegar rannsóknir verði gerðar á blóði hans. Læknar muni rannsaka hvort sjúkdómurinn hafi ágerst og gangi úr skugga um að sjúkdómurinn hafi ekki færst yfir á stig tvö en þá fer ónæmiskerfi líkamans á yfirsnúning. Það bregst þá of harkalega við veirunni og ræðst þá einnig á líffæri hins smitaða. Það er ástæðan fyrir því að margir enda á gjörgæslu og í öndunarvél.