CNN skýrir frá þessu. Fram kemur að Pfizer muni hefja tilraunir á fólki í Bandaríkjunum í næstu viku og að bóluefnið verði hugsanlega tilbúið til neyðarnotkunar í haust. BioNTech hefur þegar hafið tilraunir með bóluefnið, sem heitir BNT162, í Þýskalandi.
Tólf sjálfboðaliðar hafa fengið bóluefnið en þeir fyrstu fengu það þann 23. apríl. Til stendur að gefa um 200 sjálfboðaliðum á aldrinum 18 til 55 ára efnið í misstórum skömmtum til að finna bestu skammtastærðirnar fyrir framtíðarrannsóknir og tilraunir. Einnig verður rannsakað hversu öruggt bóluefnið er og hversu góða vernd það veitir.
Í ársfjórðungsuppgjöri Pfizere, sem var birt á þriðjudaginn, kemur fram að fyrirtækin telji hugsanlegt að hægt verði að framleiða milljónir skammta af bóluefninu fyrir árslok ef allt gengur vel og samþykki lyfjaeftirlita liggja fyrir.