Berlingske skýrir frá þessu. Fram kemur að fólkið geti ekki heldur reynt að komast til annarra Evrópuríkja því landamæri flestra ríkja eru nú lokuð út af heimsfaraldrinum. Þá er ekki auðvelt að komast yfir til Marokkó í Afríku því þar eru strangar reglur í gildi vegna faraldursins, svo strangar að marokkóskir ríkisborgarar fá ekki einu sinni að koma til landsins á löglegan hátt.
Allt þetta virðist gera að verkum að flótta- og farandfólk vill nú sumt hvert komast frá Evrópu og er farið að greiða smyglurum fyrir að komast frá Spáni til Marokkó. Þetta kemur fram í skýrslu ESB sem El País hefur fengið aðgang að. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að smyglararnir hafi sýnt ótrúlegan sveigjanleika og aðlögunarhæfni í starfsemi sinni og skipuleggi nú ferðir fyrir flótta- og farandfólk frá Marokkó aftur til síns heima frá Spáni.
Nefnd eru dæmi um að siglt hafi verið með fólk á hraðskreiðum uppblásnum bátum yfir Miðjarðarhaf til Marokkó. Hver farþegi greiðir að sögn 5.400 evrur fyrir að komast frá Evrópu til Marokkó. Þeir sem vilja komast hina leiðina, frá Marokkó til Evrópu, þurfa aðeins að greiða 400 til 1.000 evrur.
Fjölmiðlar í Alsír segja að einnig séu dæmi um að fólk sé farið að snúa aftur þangað frá Evrópu með aðstoð smyglara. Einnig er vitað að slíkar ferðir hafi verið farnar frá Ítalíu.